Viljayfirlýsing um nýjan 15 ha. atvinnukjarna í Mosfellsbæ
7/6/2019
7/6/2019
Áætlað er að á svæðinu rísi um 100 þús. fm atvinnuhúsnæðis, en ráðgert er að deiliskipulagsvinnu ljúki 2020 og að uppbyggingartími verði 8-12 ár. Svæðið verður skipulagt með umhverfi og sjálfbærni að leiðarljósi.
Reitir og Mosfellsbær undirrituðu í gær viljayfirlýsingu um skipulag og uppbyggingu atvinnusvæðis í landi Blikastaða í Mosfellsbæ. Um er að ræða 15 hektara svæði sem afmarkast af Vesturlandsvegi, Korpúlfsstaðavegi og sveitarfélagamörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar.
Samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar er landnotkun svæðisins skilgreind sem blönduð landnotkun fyrir léttan iðnað, verslanir og þjónustustarfsemi. Svæðið liggur að fyrirhugaðri íbúðabyggð í Blikastaðalandi og gert er ráð fyrir að Borgarlínan liggi í gegnum svæðið í framtíðinni.
„Í landi Blikastaða mun á næstu árum rísa nýr atvinnukjarni fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Þar verður skipulagt og byggt með umhverfi og sjálfbærni að leiðarljósi. Um er að ræða stórt svæði, aðeins lítillega minna en t.d. Skeifan í Reykjavík með þeim fjölbreytileika sem þar er að finna. Atvinnukjarninn mun njóta góðs af nálægð við gróin íbúðahverfi en ekki síður vegna góðra tenginga við gatnakerfið og öflugar almenningssamgöngur seinna meir. Atvinnukjarni á Blikastöðum opnar nýjan möguleika í húsnæðismálum fyrir framsýn fyrirtæki og stofnanir. Viljayfirlýsingin í dag rammar inn þá vegferð sem nú er hafin og hlökkum við til samstarfsins við Mosfellsbæ“, segir Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita.
“Skipulag og uppbygging á landi Blikastaða er nú hafin og við vitum að svæðið hefur marga kosti fyrir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Þau áform sem nú liggja fyrir falla vel að áherslum Mosfellsbæjar á sviði umhverfismála og atvinnukjarninn mun geta mætt þörfum ólíkra fyrirtækja. Þegar svæðið verður að fullu uppbyggt má gera ráð fyrir því að húsnæði fyrir atvinnustarfssemi hafi tvöfaldast í Mosfellsbæ en aðalskipulag gerir ráð fyrir að þarna geti risið allt að 100 þúsund fm af húsnæði fyrir þjónustu og verslun. Þetta svæði er afskaplega vel í sveit sett og vel staðsett og verður án efa mikil lyftstöng fyrir atvinnulíf í Mosfellsbæ sem og höfuðborgarsvæðið allt“, segir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í Mosfellsbæ
Í kjölfar undirritunarinnar verða fyrstu skrefin að hefja vinnu við deiliskipulag svæðisins og er miðað við að þeirri vinnu ljúki um mitt ár 2020. Samhliða deiliskipulagsvinnu verður uppbyggingin útfærð nánar og tímasett. Væntingar standa til þess að framkvæmdir við gatnagerð gæti þannig hafist strax á næsta ári og byggingaframkvæmdir í ársbyrjun 2021.
Hönnun og vefvinnsla: ONNO ehf