Korputun

Spurt & svarað

Hvernig starfsemi verður á svæðinu?

Lögð er áhersla á snyrtilega atvinnustarfsemi, en skv. deiliskipulagi er svæðið skilgreint með blandaðri landnotkun verslunar- og þjónustusvæðis og athafnarsvæðis.

Við Borgarlínustöðina, við Blikastaðaveg, er gert ráð fyrir verslunarkjarna með dagvöruverslun og fleiri minni verslunum, sem koma til með að nýtast bæði starfsfólki á svæðinu og nálægri íbúðabyggð.

Næst Vesturlandsvegi verða stærri byggingar fyrir fyrirtæki sem þurfa mikinn sýnileika og eru með blandaða starfsemi, t.d. bæði framleiðslustarfsemi og skrifstofustarfsemi.

Reitirnir innan hverfisins geta verið með blandaðri starfsemi af ýmsum stærðum og þar er horft til samnýtingar bílastæða og annarrar aðstöðu. Þar er gert ráð fyrir rýmum fyrir minni fyrirtæki, niður í um 500 fermetra.
Út við jaðarinn er gert ráð fyrir fínlegri byggingum sem gæti nýst t.d. þekkingarfyrirtækjum eða annarri starfsemi sem vill vera í nálægð við falleg græn svæði. Mengandi starfsemi og landfrekur eða óþrifalegur iðnaður er ekki heimil skv. landnotkunarheimildum aðalskipulagsins.

Hvenær verður svæðið fullbyggt?

Væntingar standa til þess að gatnagerð og framkvæmdir geti hafist árið 2023. Hraði uppbyggingar á svæðinu mun m.a. ráðast af markaðsaðstæðum. Gera má ráð fyrir að það gæti tekið allt að tíu til tólf ár frá því gatnagerð hefst þangað til svæðið verður fullbyggt.

Hversu háar byggingar verða á svæðinu?

Gert er ráð fyrir frekar jafnri lágreistri byggð, tveggja til þriggja hæða háum byggingum. Á einum stað, næst Vesturlandsvegi, er gert ráð fyrir fjórum hæðum. Almennt verða byggingar smágerðari eftir því sem byggðin færist neðar í landið.  

Hvað þýðir það að svæðið verði BREEAM vottað?

Með því að BREEAM votta skipulagið er tryggt að hugað sé að sjálfbærum áherslum í skipulagsvinnu strax í upphafi með vel skilgreindum viðmiðum um samfélagsleg, umhverfisleg og efnahagsleg gæði. Krafist er víðtæks samráðs við nærsamfélagið, sjálfbærrar nýtingu lands og náttúruauðlinda ásamt áherslu á samnýtingu innviða. BREEAM Communities er breskur vistvottunarstaðall fyrir skipulagsgerð, þar sem þriðji aðili vottar skipulagið með tilliti til samfélagslegra, umhverfislegra og efnahagslegra gæða og er því gæðastimpill á skipulagið, byggðina og samfélagið sem þar mun verða til. Allar nánari upplýsingar um BREEAM Communities má finna á www.breeam.com.

Hver eru áætluð áhrif á umferð?

Staðsetning atvinnukjarnans innan höfuðborgarsvæðisins nýtir vegrými í gagnstæða átt við umferðarþunga á annatímum. Gera má ráð fyrir að vegalengd til vinnu gæti styst fyrir marga Mosfellinga þar sem atvinnusvæði að þessari stærð kemur til með að hýsa marga vinnustaði til framtíðar.

Skv. samgöngumati sem unnið var samhliða deiliskipulagsgerðinni má áætla að fjöldi ferða inn og út úr hverfinu um verði um 14.000 ferðir/sólarhring eftir að atvinnukjarninn verður fullbyggður. Til samanburðar var sólarhringsumferð um Korpúlfsstaðaveg árið 2018 5.300 bílar/sólarhring og ársdagsumferð um Vesturlandsveg er 32.000 bílar/sólarhring.

Hverfið er byggt upp í kringum Borgarlínuna og gert er ráð fyrir að hún komi til Mosfellsbæjar um svipað leiti og uppbyggingu í hverfinu líkur. Eins verða lagðir hjólastígar með tengingar við stofnstígakerfi höfuðborgarsvæðisins og því verður auðvelt fyrir starfsfólk á svæðinu að nota aðra ferðamáta en einkabílinn og hvatt verður til þess m.a. með fræðslu.

Hver verða áhrif atvinnukjarnans á útivistarsvæði við Korpu og golfvöllinn?

Skipulagið gerir ráð fyrir að byggð verði að lágmarki 100 metrum frá ánni, til að þrengja á engan hátt að náttúrulega flóðasvæði árinnar og til að varðveita lífríkið og náttúruna sem þar er. Útivistastígur verður lagður á milli byggðar og ár til að bæta aðgengi að svæðinu og vernda viðkvæma náttúru við ánna.

Svæðið er skipulagt þannig að smágerðustu byggingarnar sem t.d. gætu hýst þekkingarstarfsemi verða staðsettar næst Korpu og golfvellinum, en byggingar næst Vesturlandsvegi eru stærri og skýla þær hverfinu fyrir vindum og hávaða frá Vesturlandvegi. Öll byggðin er lágreist og fylgir núverandi landhæð á svæðinu.

Hönnun svæðisins, með ofanvatn á yfirborði og græn svæði milli bygginga og græn þök, kemur til með að gefa svæðinu náttúrulegri ásýnd en almennt er í atvinnuhverfum, þannig verða skilin milli náttúrunnar og byggðarinnar fallegri.

Hönnun og vefvinnsla: ONNO ehf