Korputun

Fornleifar rannsakaðar í Korputúni

Kotbýlið Hamrahlíð

Fornleifarannsókn fór fram á tóftum í landi Hamrahlíðar í Mosfellsbæ. Hamrahlíð var hjáleiga frá jörðinni Blikastöðum sem átti land á svæðinu sem er til rannsóknar. Vitað er að þar var búskapur frá því um miðja 19. öld og fram yfir aldamót og þarna er því gott tækifæri til að rannsaka alþýðukot frá afmörkuðu tímabili en fá slík hafa verið rannsökuð á Íslandi.

Hamrahlíðar er hvorki getið í jarðabókum árin 1703 né 1847 enda hefur býlið ekki verið orðið til þá. Séra Stefán Þorvaldsson skrifar hins vegar um það árið 1855: „Afbýli eitt lítið, byggt fyrir 4-5 árum úr Korpúlfsstaðalandi, norðvestan undir Lágafellshömrum, skammt í suður frá Blikastöðum, er lítt byggilegt sökum landþrengsla og töðuleysis.“ Hamrahlíð hefur því byggst um miðja 19. öld.

Heimildir eru um tvo ábúendur í Hamrahlíð. Annar var Jón B. Stephensen hreppstjóri og dannebrogsmaður sem bjó um hríð á Korpúlfsstöðum og var í manntali árið 1845 sagður forlíkunarmaður eða sáttargerðarmaður. Hann lenti þó sjálfur í illdeilum við sveitunga sína sem leiddu til dómsmáls. En Jón þessi bjó í Hamrahlíð árið 1850 og þar fæddist Guðrún dóttir hans (1852-1936) sem sagt er frá í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness.

Hinn Hamrahlíðarábúandinn hét Friðrik Þorkelsson (1834-1861) og var þjófur sem fjallað er um í dómsskjölum. Árið 1857 var honum gert að greiða fjóra ríkisdali í fátækrasjóð fyrir að notfæra sér 2-5 lítra af útskorinni kræklingabeitu. Þremur árum síðar var hann dæmdur til að hljóta 14 vandarhögg fyrir að hafa „snemma morguns í haust, er var, áður en fólk var komið á fætur á heimili hans, Gufunesi, stolið frá ekkjunni Helgu Hafliðadóttur (1790-1872) 3 dönskum specíum heilum, er voru í stokk í kistu hennar, sem stóð þar niður í stofuhúsi, var bæði stofan og kistan ólæst. Enn fremur er það sannað, að hann hafi í fyrra vetur stolið frá húsbónda sínum Hafliða Hannessyni, gráum vaðmálsstúf“. Friðrik lét sér ekki segjast þrátt fyrir dóma en hann er sem sé sagður vera frá Hamrahlíð.

Fornleifarannsóknin hófst í byrjun júní 2022 og komu í ljós nokkur mannvirki. Eitt þeirra er líklega bær eða íbúðarhús sem hefur verið sambyggt útihúsum. Grafinn var könnunarskurður í mannvirkið og kom í ljós gólf sem sennilega hefur þá verið í bæjarhúsunum. Útlínur fjögurra húsa eða herbergja hafa verið grafin fram á bæjarstæðinu. Í öðru húsi sem búið er að grafa fram hefur líklega verið skepnuhald. Ekki er ljóst enn hvaða hlutverki öll húsin/herbergin þjónuðu, en eitt af markmiðum rannsóknarinnar er að komast að því.

Að auki fannst mannvirki með tveimur herbergjum eða rýmum rétt fyrir sunnan bæjarstæðið; hlutverk þess er enn óljóst á þessu stigi en nánari rannsókn gæti varpað ljósi á það.

Ýmsir forvitnilegir gripir hafa fundist, þar á meðal brýni, naglar, flöskubrot, lyfjaglös og vínglös.

Rannsóknin fór fram á vegum Antikva ehf. og stjórnaði Hermann Jakob Hjartarson fornleifafræðingur henni á vettvangi. Hún var unnin fyrir Reiti fasteignafélag.

Hönnun og vefvinnsla: ONNO ehf