Fyrsta skref BREEAM vottunar deiliskipulags Korputúns staðfest
25/5/2023
25/5/2023
Korputún hefur fengið staðfest fyrsta skref vottunar deiliskipulagsins frá BREEAM í Bretlandi.
Vottunin felst í því að öll grunngögn sem unnin voru fyrir deiliskipulagið hafa verið samþykkt og hefur Korputún því fengið „Interim Assessment“ eða bráðabirgðavottun. Í framhaldinu er hægt að senda öll önnur gögn sem tilheyra skrefum 2 og 3 í vottunin til BREEAM og eftir yfirferð á þeim fæst endanlega vottun og einkunn fyrir skipulagsvinnuna.
Grunngögnin voru samþykkt af BREEAM án athugasemda sem staðfestir gæði gagna og vandaða vinnu matsaðila.
Undir grunngögn telst vinna við samráðsáætlun, efnahagsáætlun og greiningum á þörfum nærsamfélagsins. Þá var unnið ítarlegt flóðahættumat, hljóðvistargreining, orkuáætlun, vatnsáætlun og samgöngumat fyrir hverfið. Einnig var landið skoðað m.t.t. fyrri notkunar, innviða og mögulegrar mengunar og gert vistfræðimat og viststefna fyrir hverfið. Öll þessi gögn eru unnin samhliða deiliskipulagsgerðinni og móta vinnu við deiliskipulagið, þar sem svæðið er hannað í takt við niðurstöður þessara greininga.
Reitir fasteignafélag er eigandi Korputúns og fór fyrir skipulagsgerðinni. Arkís eru skipulagshönnuðir. Flest grunngögnin voru unnin af Verkís en Alta gerði samráðsáætlun. Mannvit er matsaðili fyrir vottunina.
BREEAM vottun tryggir að hugað sé að sjálfbærum áherslum í skipulagsvinnu strax í upphafi með vel skilgreindum viðmiðum um samfélagsleg, umhverfisleg og efnahagsleg gæði. Í skipulagsskilmálum er t.d. rík krafa um gróðurþekju, stór hluti bílastæða verður með gegndræpu yfirborði og skilgreint hefur verið plöntuval sem er vistfræðilega viðeigandi fyrir svæðið styður við líffræðilegan fjölbreytileika. Sjálfbærar ofanvatnslausnir og safntjarnir neðst í hverfinu vernda Korpu fyrir breytingum í flæði vatns og hreinsa yfirborðsvatn áður en það nær til árinnar.
Reitir hafa áhuga á því að BREEAM votta einnig byggingar sem reistar verða á svæðinu og verður því vistvottað atvinnuhúsnæði til leigu á svæðinu.
Skipulagsferli svæðisins var einstaklega vandað enda unnið eftir stöðlum BREEAM Communities, það tryggir að hugað sé að sjálfbærum áherslum í skipulagsvinnu strax í upphafi með vel skilgreindum viðmiðum um samfélagsleg, umhverfisleg og efnahagsleg gæði. Í skipulagsskilmálum er t.d. rík krafa um gróðurþekju, stór hluti bílastæða verður með gegndræpu yfirborði og skilgreint hefur verið plöntuval sem er vistfræðilega viðeigandi fyrir svæðið og styður við fjölbreytni. Sjálfbærar ofanvatnslausnir og safntjarnir neðst í hverfinu vernda Korpu fyrir breytingum í flæði vatns og hreinsa yfirborðsvatn áður en það nær til árinnar.
Korputún er hannað til að vera betri staður til að vinna, enda sýna rannsóknir að starfsfólk kann að meta grænna vinnuumhverfi, það dregur úr streitu og eykur vellíðan. Jafnvel útsýni með gróðri getur verið mikilvægt. Grænn vinnustaður er samkeppnisforskot í rekstri þar sem fólk er mikilvægasti framleiðsluþátturinn.
Til baka
Hönnun og vefvinnsla: ONNO ehf