Korputun

Deiliskipulag fyrir Korputún hefur tekið gildi

29/3/2023

Deiliskipulag fyrir Korputún, 90 þús. fm. atvinnukjarna á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar, hefur nú tekið gildi.

Deiliskipulag fyrir Korputún, 90 þús. fm. atvinnukjarna í landi Blikastaða, hefur nú verið samþykkt. Um er að ræða byggð fyrir verslunar-, þjónustu- og athafnasvæði, þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni og samnýtingu, náttúru og aðlaðandi umhverfi. Samgönguás Borgarlínu mun liggja í gegnum skipulagssvæðið.

Gert er ráð fyrir að vinna við gatnagerð hefjist á árinu og uppbygging fyrsta fasa strax í kjölfarið. Fyrsti fasi verður verslunarkjarni með matvöruverslun og annarri þjónustu. Í Korputúni verða um 90 þúsund fermetrar atvinnuhúsnæðis. Svæðið verður lykil atvinnukjarni á Höfuðborgarsvæði framtíðarinnar. Þar verður til leigu húsnæði frá um 300 fermetrum upp í mjög stórar einingar.

Skipulagsferli svæðisins var einstaklega vandað enda unnið eftir stöðlum BREEAM Communities, það tryggir að hugað sé að sjálfbærum áherslum í skipulagsvinnu strax í upphafi með vel skilgreindum viðmiðum um samfélagsleg, umhverfisleg og efnahagsleg gæði. Í skipulagsskilmálum er t.d. rík krafa um gróðurþekju, stór hluti bílastæða verður með gegndræpu yfirborði og skilgreint hefur verið plöntuval sem er vistfræðilega viðeigandi fyrir svæðið og styður við fjölbreytni. Sjálfbærar ofanvatnslausnir og safntjarnir neðst í hverfinu vernda Korpu fyrir breytingum í flæði vatns og hreinsa yfirborðsvatn áður en það nær til árinnar.

Korputún er hannað til að vera betri staður til að vinna, enda sýna rannsóknir að starfsfólk kann að meta grænna vinnuumhverfi, það dregur úr streitu og eykur vellíðan. Jafnvel útsýni með gróðri getur verið mikilvægt. Grænn vinnustaður er samkeppnisforskot í rekstri þar sem fólk er mikilvægasti framleiðsluþátturinn.

ARKÍS arkitektar eru höfundar skipulagsins, en ARKÍS hefur víðtæka reynslu í hönnun umhverfisvænna bygginga og hafa áður unnið við BREEAM vottað skipulag. Verkís sá um verkfræðihönnun, byggðatækni og umhverfismál. Landslag sáum landslagshönnun og ráðgjöf því tengdu á skipulagsstigi. Mannvit hefur umsjón með BREEAM vottun skipulagsins.

Til baka

Hönnun og vefvinnsla: ONNO ehf